Site menu:


Barnafoss

Barnafoss er örskammt frá Hraunfossum en þetta svæði hefur verið friðlýst sem náttúruvætti frá 1987.

Barnafoss dregur nafn sitt af tveimur börnum sem áttu endur fyrir löngu að hafa fallið í ána af steinboga sem lá yfir ána. Heimilifólkið á Hraunsási fór til kirkju í Gilsbakka á jólum en skildi börnin eftir heima. Þeim leiddist og vildu fara á eftir heimilisfólkinu. Þegar fólkið kom heim úr messunni voru börnin horfin en fótspor þeirra lágu að steinboganum við ána. Er móðir barnanna varð þess áskynja að þau höfðu fallið í ána lét hún höggva steinbogann og mælti svo um að yfir Barnafoss skyldi enginn maður komast lífs af um aldur og ævi.

Göngustígur er að Barnafossi frá bílastæðinu við fossana. Á sumrin er veitingasala á svæðinu.

Staður: Í Borgarfirði, 55 km frá Borgarnesi, milli Reykholts og Húsafells.