Site menu:


Hraunfossar

Hraunfossar og Barnafoss eru falleg og sérstæð náttúrufyrirbæri og þangað leggur fjöldi ferðamanna leið sína til að skoða þessar stórkostlegu náttúruperlur. Hraunfossar eru tærar og kaldar lindir sem koma undan hrauninu og renna í fossum og flúðum niður í Hvítá. Barnafossinn sjálfur hefur verið að breytast í manna minnum en áin hefur grafið sig niður úr hrauninu og rennur í djúpu og þröngu gljúfri. Áður fyrr var steinbogi yfir fossinn sem var samgönguleið á milli Hálsasveitar og Hvítársíðu.

Um nafngiftina á Barnafossi er eftirfarandi saga :
,,Einu sinni bjó ekkja í Hraunsási. Hún var efnuð vel og meðal annars átti hún Norðurreyki í Hálsasveit. Tvö börn átti hún. Voru þau komin á legg, er saga þessi gerðist. Eitt sinn átti að halda aftansöng á jólanótt á Gilsbakka. Þangað fór Hraunsáskonan með allt sitt fólk, að undanskildum börnunum tveim. Þau áttu að leika sér heima við. Tunglskin var og blítt veður. Þegar fólkið kom heim voru börnin horfin. Spor þeirra lágu að steinboganum á ánni. Lét þá móðir þeirra höggva bogann niður með þeim ummælum að yfir Barnafoss skyldi enginn maður komast lífs af um aldur og ævi. En í minningu um börnin gaf hún Reykholtskirkju Norðurreyki. (Kristleifur Þorsteinsson II (1972) Hvítá.276)."

Staður: Í Borgarfirði, 55 km frá Borgarnesi, milli Reykholts og Húsafells.